Ferill Ólafar Pálsdóttur — Kristín G. Guðnadóttir

Ólöf Pálsdóttir (1920 – 2018) ólst upp á miklu menningarheimili og ákvað ung að hún vildi verða myndhöggvari. Hún hlaut sína fyrstu tilsögn í myndlist í Færeyjum. Hún sigldi þangað í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari til að dvelja hjá föður sínum, en lokaðist þar inni í þrjú ár og notaði tímann til að mennta sig í myndlist.  Hún fluttist til Danmerkur 1945 og hóf listnám við einkaskóla í Árósum.  Síðan lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún hóf undirbúningsnám fyrir æðra listnám í Fredriksbergs Tekniske Skole. Árið 1949 fékk hún inngöngu í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Þar nam hún höggmyndalist hjá Einar Utzon-Frank en hann var þá einn þekktasti myndhöggvari Dana. Einnig sótti hún fyrirlestra hjá hinum virta raunsæismálara og grafíker Aksel Jørgensen. Ólöf undi sér vel í skólanum innan um fátæka listnema, barónessur og útlendinga og gekk henni einstaklega vel í námi. Árið 1952 hlutu verk hennar sérstaka athygli á nemendasýningu skólans. Ólöf ferðast víða um ævina og árið 1954 átti hún þess kost að fara til Egyptalands. Þar stundaði hún um hríð nám í höggmyndalist undir handleiðslu Wissa Wassef sem var egypskur arkitekt og prófessor í myndlist og hún kynnti sér einnig hinn forna menningararf landsins. Þegar Ólöf útskrifaðist frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn vorið 1955 var hún sæmd heiðurspeningi skólans úr gulli fyrir útskriftarverkefni sitt, höggmyndina Sonur.  Námsferli hennar var þó ekki lokið og árið 1957 dvaldi hún í Rómarborg og stundaði þar nám í höggmyndalist hjá prófessor Fazzini.

Skömmu eftir að Ólöf lauk námi giftist hún Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og fluttist til Íslands.  Ólöf segist hafa haft efasemdir um það, hvort hjónaband og barneignir ættu samleið með myndhöggvarastarfinu en þær grunsemdir reyndust eiga við talsverð rök að styðjast. [i]  Á þeim tíma þótti sjálfsagt að konur gæfu upp starf sitt, til að hugsa um börn og heimili, en hún kveðst hafa siglt á móti straumnum hvað það snerti og haldið áfram starfi sínu sem myndhöggvari eftir því sem færi gafst. Eftir heimkomuna hafði Ólöf vinnustofu á Vesturgötu í Reykjavík þar sem hún vann að listsköpun sinni og mótaði meðal annars myndir af Halldóri Laxness að beiðni Ragnars Jónssonar í Smára. Hún starfaði um hríð sem stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og miðlaði þar list sinni til nýrrar kynslóðar. Ólöf fluttist til Kaupmannahafnar árið 1970 þegar eiginmaður hennar var skipaður sendiherra Íslands í Danmörku. Þau fluttust síðar til Lundúna og bjuggu erlendis til ársins 1982. Ólöf segir að ekki hafi verið mikið næði til að stunda listsköpun samhliða þeim verkefnum sem hún þurfti að takast á við sem sendiherrafrú. Hún leitaðist við að kynna íslenskt menningarlíf fyrir þeim þjóðum sem hún bjó með og stóð meðal annars fyrir listsýningum og tónleikum, hélt fyrirlestra um menningarmál og ritaði greinar í blöð og tímarit. [ii]

Fyrsta einkasýning Ólafar var haldin í sýningarsal Listafélags Færeyja á Ólafsvöku í Þórshöfn í Færeyjum árið 1961, en þar hafði Ólöf dvalið ásamt föður sínum á stríðsárunum. Síðar hélt hún einkasýningar í Danmörku og Bretlandi og einnig tók hún þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis. Hún var meðal annars félagi í listamannasamtökunum Den Nordiske, sem hún átti þátt í að stofna og var einnig félagsmaður í fleiri samtökum listamanna. Árið 1989 var hún útnefnd heiðursfélagi í The Royal Society of British Sculptors.

Mannamyndir voru alla tíð meginviðfangsefni Ólafar, bæði heilmyndir og portrettmyndir.  Hún vann verk sín í leir eða gifs en mörg þeirra voru síðan steypt í brons. Myndir hennar eru í natúralískum anda, formfagrar og látlausar, en jafnframt tjáningarríkar og bera með sér innlifun listakonunnar í hugarheim fyrirmynda sinna.  Barnslegt sakleysi og einlægni einkennir Stúlkumynd (Soffía) frá árinu 1950 sem prýðir garð Kvennaskólans í Reykjavík. Hið þekkta verk Tónlistarmaðurinn er frá árinu 1974. Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari var fyrirmynd Ólafar og lék hann á hljóðfæri sitt á meðan hún vann myndina. [iii]  Hún mótar sellóleikarann á einfaldan en áhrifaríkan hátt og gerir hann að sígildri táknmynd tónlistar. Verkið er nú staðsett við tónlistarhúsið Hörpu í Reykjavík þar sem það nýtur sín sérstaklega vel. Þetta verk svo og önnur verk Ólafar bera með sér ríka formkennd og vitna um persónulega tjáningu og sérstöðu listakonunnar.

Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur

Heimildir:
[i] „Listin og lífið. Viðtal við Ólöfu Pálsdóttur.“ Morgunblaðið, 2. nóvember 1997.
[ii] Sama heimild.
[iii] Morgunblaðið, 9. desember 1977.