Í minningu Ólafar Pálsdóttur — Guðbergur Bergsson

Þegar Norræna húsið var enn á vissan hátt óskabarn á sviði þess sem hægt væri að kalla norræna meðvitund gekk maður þar alltaf fram hjá útigangshesti Ólafar Pálsdóttur og varð sífellt fyrir sömu áhrifum en samt í hvert sinn nýjum eins og hendir þegar listaverk lætur hugann ekki í friði heldur vekur sífellt með óróleika þeim sem einkennir listina og verk hennar, ef þau eru einhvers virði. Listaverk svæfir ekki og leiðir ekki heldur til samþykkis. Eftir að hafa farið undir áhrifum fram hjá hestinum lá leiðin inn í bókasafnið eða í kaffistofuna þar sem norrænu dagblöðin voru fyrir gesti til þess að auka samkennd og þekkingu þjóða sem eru á flestan hátt skyldar en mættu vera í nánari tengslum.

Útigangshestur Ólafar var ekki bara verk í sjálfu sér heldur vísaði á verk annars listamanns og myndaði þannig tengsl aftur í tímann, tíma útigangshestanna í kulda og snjó í fremur óljósu landslagi. Þannig var það með hestinn, þarfasta þjóninn á þeim tíma þegar vitund landsmanna var í engum vafa um að þeir ættu bæði ákveðið móðurmál og tryggt föðurland. Enginn var í vafa um slíkt, enda snerist ekki allt um kynið sem hina miklu sjálfsmeðvitund. Öðru fremur var það trú okkar landsmanna á móðurmálið, föðurlandið og framtíðina. Framtíð lands og þjóðar var ekki framtíð í brotum. Og fortíðin var ekki eitthvað sem leiddi til nútímaloka. Samtíminn var ekki eitthvað sem benti til enda nútímans. Ekkert geðrof heims og þjóðar sem hafði verið öldum saman dálítið eins og útigangshestur menningarlega séð.

Útigangshestur Ólafar var gerður úr áþreifanlegu efni. Efnið var annað en það sem var í málverki Jóns Stefánssonar af Útigangshestunum. Að tengja hest Ólafar og hesta Jóns vakti leiki í þekkingu og um leið almenna gleði sem fylgir því að gera sér grein fyrir og sjá samhengi í listum. Hér var á ferð samhengi, skyldleiki í höggmyndalist og málaralist tveggja listamanna af sömu þjóð. Á leiðinni fram hjá Útigangshesti Ólafar Pálsdóttur, sem sást með berum augum, birtust fyrir innri sjónum gestsins Útigangshestar Jóns Stefánssonar á málverki í fjarlægu safni. Hægt var að snerta með augum og höndum hest Ólafar en ekki hesta Jóns nema með innri sýn í minninu. Hvort var fullkomnara? Engin leið var að meta það. Manni fannst þetta tvennt í listum, hið gerlega og ógerlega í snertingu, vera á sinn hátt fullkomnun á sviði fegurðar. Hér var á ferðinni í fagurfræði það tvísæi sem myndar andlega samstöðu skynjunar og áþreifanleika, til að mynda með höndunum. Í báðum tilvikum var tvennt ráðandi: hugsun og vitið í höndunum. Sem heilinn stjórnar að sjálfsögðu.

Verk Ólafar Pálsdóttur heilluðu á svipaðan en samt á annan hátt en verk Nínu Sæmundsson. Nína var einhvern veginn þannig andlegri að hún teygði úr formunum með endurreisnanlegum ítölskum hætti og umvafði líkamana blíðu, af því að höggmyndir hennnar voru sléttar á yfirborðinu og andinn í efni þeirra höfðaði einkum til þess staðar í sálarlífinu sem nálgast ósnortnar tilfinningar án þess þó að vekja tilfinningasemi eða væmni. Þegar gengið var fram hjá höggmydum Nínu vaknaði annað í tilfinningalífinu og vitsmununum en þegar farið var framhjá verkum Ólafar eða Sigurjóns Ólafssonar. Allt var samt skylt og nátengt tímanum sem ríkti þegar verkin voru færð í efnisleg form tiltölulega styrkrar þjóðar.

Ólöf Pálsdóttir var sérstök og ólík öðrum hérlendum myndhöggvurum í því að vilja láta líkama mannsins vera í óvenjulegum stellingum, ekki óþægilegum heldur óvæntum án þess að vera á skjön við lífið. Hún lét líkamann lúta listrænum vilja sínum. Það var engu líkara en hún teldi að nóg væri fyrir manninn að vera í hinni íslensku tilveru sinni sífellt í eðlilegum stellingum andspænis lífinu og samfélaginu, það væri óþarfi fyrir hana, listakonuna, að fylgja þeirri hefð í þjóðlífinu. Ólöf var andstæð stöðnun en hún braut aldrei líkamsformin og klastraði þeim síðan saman með sama hætti og algengt var til að mynda hjá expressionistum. Hún beygði aðeins líkamann í höndunum til formlegrar blessunar og gætti þess vandlega – til fullkomnunar – að láta alltaf eitthvað vanta í heildarmyndina svo áhorfandinn gæti fyrir „sína parta“ bætt við „efni og formi“ frá eigin brjósti. Ólöf Pálsdóttir ofsagði aldrei. Hún sagði ekki heldur með höndunum:

Að segja er það sama og að þegja … eða öfugt … af því að lokum snýst allt upp í andstæðu sína.

Engu að síður gleymdi Ólöf aldrei þögninni sem undirstöðu hljómsins. Hún varðveitti þögnina með sínum hætti þegar hún gerði höggmynd af tónlistarmanni með strengi þagnar í hljóðfæri sínu.

Nú eru þau öll, hin aðdáunarverðu, horfin til varðveislu í huga okkar og íslenskrar myndlistarsögu: Nína Sæmundsson, Sigurjón Ólafsson og síðast Ólöf Pálsdóttir.

Guðbergur Bergsson
Febrúar, 2018.